15.3.2007 | 23:35
Auður kjörseðill þýðir nei.
Þingmenn voru hér í eina tíð þeir skynsömustu úr hverju héraði; það var á þeim tíma þegar goðar voru valdir að viti og réttlæti, einsog segir í Grágás. En nú er öldin önnur, eða... nú er hún Snorrabúð stekkur (þ.e.a.s. búðin þar sem Snorri goði bjó á þingi og tók á móti gestum og hélt langar ræður af viti og réttlæti, er nú orðin stekkur þar sem litlu lömbin jarma hvert uppí annað og narta í njóla og gras)
Hverri mannveru, sem komin er yfir þrítugt hér á landi, ætti að vera orðið ljóst, að það mannval sem rekst inn á Alþingi okkar Íslendinga er með ólíkindinum ómerkilegur söfnuður villuráfandi sauða. Hvort sem litið er á hópinn í sagnfræðilegu samhengi, eða bara í sögulegu samhengi síðustu áratuga. Örfáum dögum fyrir þingslit (og þá sérstaklega á kosningaári) er fávitahátturinn aldrei augljósari.
Hvenær í sögu nokkurs þings (að maður tali nú ekki um þess þings sem montar sig af að vera "amma" allra þinga í vestur Evrópu, sem er að sjálfsögðu bull) - en hvenær í sögu nokkurs þings fær forseti þingsins ekki hljóð til þess að stýra þingfundi, öðruvísi en að uppreisn sé í þinghúsinu. En - það var engin uppreisn. Kannski fengu þingmenn sér bara aðeins of mikið neðan í því og voru farnir að rövla einsog þeir sem hanga gjarnan of lengi á börum verbúðarinnar Reykjavíkur.
Íslensk þjóð er bundin á klafa forheimsku, þegar þingmenn og ríkisstjórn þjóðarinnar er annars vegar. Verkin sýna merkin. Það er engin virðing, engin festa, enginn manndómur, engin drengskapur, engin heilindi... ekki neitt. Einfaldlega vegna þess að það fólk sem situr í þingsölum er í flokkum, og flokkarnir eru alfa og omega alls sem er, sumir flokkanna hafa átt þetta land og öll þess auðævi í áratugi; flokkarnir eru það fyrirbæri sem umbreytir ágætu fólki í skriðdýr. Verkin sýna merkin.
Eitt verk, sem flokkarnir komu sér þó saman um að koma í farmkvæmd, var að samþykkja breytingu á kosningalögum, þannig að auður seðill var skilgreindur sem ógildur seðill. Um leið og þessi breyting var samþykkt hættu kosningalögin að vera lýðræðisleg, vegna þess að nú getur maður aðeins sagt JÁ við þessum eða hinum flokknum, en engin getur sagt NEI.
Auður seðill þýðir: Nei, engin sem er í framboði hefur mitt traust. Með öðrum orðum; auður seðill er hið eina lýðræðislega NEI sem kjósendum hér á landi hefur staðið til boða. En nú hefur NEI-ið verið ógilt, með breytingum á kosningalögum. (sjá vef alþingis)
Hverjum er það í hag að auðir seðlar séu gerðir ógildir? Ekki kjósendum, heldur flokkunum. Ef kjósendur væru (hefðu verið) almennt meðvitaðir um þá staðreynd að auður seðill er atkvæði, auður seðill er NEI, þá er nokkuð öruggt að mun fleiri auðir seðlar hefður skilað sér í kjörkassana en raun ber vitni. En nú er kannski komin tími til að snúa þessu við. Skilum auðu og segjum með því: engin sem er í framboði hefur traust mitt, auðir seðlar eru atkvæði og skulu teljast sem slíkir. Nái auðir seðlar þeirri prósentu sem til þarf til þingsætis þá skal vera autt þingsæti á næsta kjörtímabili í krafti þessara atkvæða.
Auður stóll á þingi yrði ef til vill ágæt áminning til þeirra þingmanna, sem þó náðu inn, til þess að vera ekki að eyða tíma sínum, og okkar kjósenda, í eitthvert andskotans bull, þegar þeir eiga að vera að vinna vinnuna sína.
Gleymum því ekki heldur að þingmenn og ráðherrar eru í þjónustustörfum í þágu landsmanna. Þetta fólk hefur ekki völd til að gera neitt annað en það sem meirihluti þjóðarinnar vill. Öll þeirra innbyrðis hrossakaup eru fyrir utan það umboð sem þetta fólk fær í hendur frá þjóðinni. Það eru myrkraverk á milli flokka innbyrðis og koma þjóðinni ekki við.
Gengur ekki að margir séu að reyna að stjórna þingfundi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
15.3.2007 | 23:03
Fyrsta bloggfærsla
Um bloggið
Friðrik Erlings
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku:
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku:
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar